Skip to main content

Viðskiptaskilmálar Icetransport ehf.

 

1. Gildissvið

  • Viðskiptaskilmálar þessir eins og þeir eru á hverjum tíma gilda um alla þá þjónustu sem Icetransport ehf. ( í skilmálum þessum einnig nefnt „félagið“) lætur viðskiptavinum sínum í té, hvort sem greitt er fyrir þjónustuna eða ekki.
  • Neðangreindir skilmálar gilda eftir því sem við á hverju sinni, enda sé ekki samið um aðra skilmála. Ákvæði viðskiptaskilmála þessara víkja þó fyrir ófrávíkjanlegum lögum og ákvæðum farmbréfa.
  • Viðskiptamaður samkvæmt ákvæðum viðskiptaskilmála þessara er sá sem reikningur eða farmbréf er stílað á.
  • Sá sem fyllir út umsókn um reikningsviðskipti hjá Icetransport, skal hafa kynnt sér skilmála þessa og samþykkja þá fyrir hönd viðskiptamanns með því að undirrita umsóknareyðublað um reikningsviðskipti.

2. Þjónusta

  • Icetransport ehf. skuldbindur sig til þess að veita viðskiptavinum sínum umsamda þjónustu innan eðlilegra tímamarka.
    Icetransport ehf. gefur út viðtökuskírteini við móttöku á öllum vörum í vöruhúsi öðrum en hraðsendingum. Á viðtökuskírteini er að finna mikilvægar upplýsingar um þá vöru sem veitt er viðtaka s.s. upplýsingar um þyngd, stærð og stykkjafjölda vöru.
  • Viðtökuskírteini er kvittun fyrir því vörumagni sem Icetransport ehf. hefur veitt viðtöku.

3. Verð, tilboð og greiðslukjör

  • Icetransport ehf. áskilur sér rétt til verðbreytinga án fyrirvara. Með hliðsjón af gengi og verðlagsbreytingum á hverjum tíma.
  • Öll uppgefin verð í verðlista og á heimasíðu fyrirtækisins www.icetransport.is eru grunnverð að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.
  • Afslættir, hvort sem um staðgreiðslu- eða magnafslátt er að ræða, dragast frá grunnverði án virðisaukaskatts.
  • Sé tilboð gert í flutning á vöru gildir tilboðið í 10 virka daga frá dagsetningu þess. Tilboðsverð miðast við staðgreiðslu.
  • Tilboð er gefið með fyrirvara um að gengisvísitala ISK breytist ekki um meira en 5% á tilboðstímanum.
  • Fyrirvari er gerður um prentvillur í verðtilboðum.
  • Boðið er uppá raðgreiðslusamninga við Valitor (VISA) og Borgun (Mastercard).
  • Umsóknir um reikningsviðskipti fylgja útlánareglum Icetransport ehf.

4. Afhending vöru

  • Vörur eru afhentar innan höfuðborgarsvæðisins af starfsmönnum Icetransport ehf.
  • Vörur eru afhentar utan höfuðborgarsvæðisins af starfsmönnum flutningsaðila sem Icetransport ehf. er í samstarfi við.
  • Um verð fyrir akstursþjónustu fer samkvæmt gjaldskrá félagsins eins og hún er hverju sinni.

5. Ábyrgð Icetransport ehf.

  • Icetransport ehf. ber skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar á beinu tjóni viðskiptamanns, sem rekja má til ásetnings eða stórfellds gáleysis félagsins eða manna sem það ber ábyrgð á, þó með þeim undantekningum sem finna má í viðskiptaskilmálum þessum. Sönnunarbyrði hvílir á þeim er heldur því fram að félagið beri ábyrgð.
  • Upphaf ábyrgðar félagsins miðast við þann tíma er þjónusta er látin í té, en lok ábyrgðar miðast við þann tíma er viðkomandi þjónustu er lokið. Kjósi Icetransport ehf. að nýta sér vanefndaúrræði og segja viðskiptasamningi upp einhliða, er félaginu heimilt að senda viðskiptamanni tilkynningu um brotfall ábyrgðar og lýkur þá ábyrgð félagsins 14 dögum eftir að tilkynningin er send.

6. Bótagrundvöllur og fjárhæð bóta

  • Þegar Icetransport ehf. ber að greiða bætur vegna hvarfs og skemmda á vöru skal við ákvörðun bótafjárhæðar miða við verðgildi vöru á tjónsdegi samkvæmt vörureikningi eða viðtökuskírteini sbr. 2. mgr. 2. gr. viðskiptaskilmála þessara.
  • Liggi verðmæti vöru ekki fyrir skulu bætur reiknaðar eftir verðmæti vöru sömu tegundar og sömu gæðum og þegar tjónið átti sér stað. Sönnunarbyrðin um verðmæti vöru hvílir á viðskiptamanni í tilvikum sem þessum.
  • Greiðslur vegna hlutatjóns vöru geta aldrei numið hærri fjárhæð en ef varan hefði orðið fyrir altjóni.
  • Greiði Icetransport ehf. bætur vegna altjóns á vöru, áskilur félagið sér rétt eignarétt að vörunni. Kjósi Icetransport ehf. að nýta sér ekki þennan rétt sinn, getur félagið sent viðskiptamanni sínum tilkynningu og krafist þess að hann fjarlægi vöruna á sinn kostnað.
  • Icetransport ehf. ber aldrei ábyrgð á afleiddu tjóni s.s. vegna tapaðra viðskipta eða missis hagnaðar.
  • Icetransport ehf. greiðir aldrei bætur vegna tjóns á fornmunum eða vegna annarra tilfinningarlegra verðmæta nema um það sé sérstaklega samið.
  • Beri Icetransport ehf. að greiða viðskiptamanni bætur skal lækka eða fella þær niður ef sannað er að viðskiptamaður eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis. Viðskiptamanni er skylt að takmarka tjón sitt í samræmi við meginreglur íslensks skaðabótaréttar.

7. Ábyrgðarleysisástæður

Icetransport ehf. ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni er rekja má til neðangreindra orsaka:

  • Bruna, vatnstjóns eða þjófnaðar.
  • Meðferð vöru þ.m.t. hleðslu, lestun eða losun vöru sem viðskiptamaður eða menn á hans vegum framkvæma.
  • Alvarlegra ófyrirsjáanlegra atburða (force majeure), svo sem náttúruhamfara, stríðs, geislavirkni eða annarra atburða sem félagið hefur enga stjórn á s.s. viðskiptahamla, flugslysa, skipsbrota eða annarra þvíumlíkra atburða.

Viðskiptamönnum félagsins er bent á að kaupa sér ávallt farmtryggingu.

8. Ábyrgðartakmörkun

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. viðskiptaskilmála þessara skal Icetransport ehf. aldrei greiða hærri bætur en sem hér segir:

  • Bætur geta aldrei orðið hærri en sem nemur 2 SDR fyrir hvert brúttókílógramm vöru, sem tapast hefur, skemmst eða rýrnað.
  • Bætur geta aldrei orðið hærri en sem nemur 667 SDR fyrir hvert stykki eða einingu vöru, sem tapast hefur, skemmst eða rýrnað.
  • Við mat á því hvað telst vera eitt stykki eða eining, ber að miða við það sem fram kemur á kvittun fyrir móttöku vöru en ef slík kvittun hefur ekki verið gefin út, skal miða við það sem fram kemur í farmbréfi vegna flutnings á vöru.
  • Í þeim tilvikum þegar ekki reynist unnt að staðreyna þyngd eða fjölda stykkja/einingu vöru geta bætur aldrei orðið hærri en sem nemur 7.500 SDR vegna hvers tjóns eða fleiri tjóna viðskiptamanns ef orsök þeirra er sú sama.
  • Ábyrgð Icetransport ehf. gagnvart öllum viðskiptamönnum sínum skal vera takmörkuð við 100.000 SDR vegna allra krafna sem rísa vegna eins og sama tjónsatburðar. Heimild félagsins til takmörkunar á grundvelli þessarar greinar skal vera fyrir hendi óháð því á hvaða grundvelli ábyrgðin hvílir. Sérhver fjárhæð, sem sætir takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessari grein, skal skiptast milli kröfuhafa að tiltölu við kröfur þeirra.
  • Ákvæði 5. mgr. 8. gr. viðskiptaskilmála þessara um allsherjartakmörkun stendur ekki í vegi fyrir því að ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. skilmálanna um einstaka takmörkun sé beitt í því skyni að takmarka ábyrgð Icetransport ehf. gagnvart viðskiptamönnum sínum.

9. Tjónstilkynningar

  • Verði viðskiptamaður fyrir tjóni sem hann telur félagið bera ábyrgð á skal hann senda félaginu tilkynningu um slíkt, áður en liðnir eru 10 dagar frá því hann vissi eða mátti vita um tjónið.
  • Í tjónstilkynningu skulu koma fram upplýsingar um hvaða vöru eða þjónustu sé um að ræða og fjárhæð bótakröfu.

10. Skyldur viðskiptamanna

  • Viðskiptamaður ber að sjá til þess að merking og pökkun vöru sé fullnægjandi og að kröfum opinberra aðila vegna vöru sé fullnægt s.s. tollskýrslugerð.
  • Viðskiptamaður skal upplýsa Icetransport ehf. um það ef varan hefur að geyma hættuleg efni eða ef gæta þarf sérstakrar varúðar við meðhöndlun hennar. Vanræki viðskiptamaður að upplýsa um slíkt, áskilur félagið sér rétt til þess að farga vöru án viðvörunar og án greiðslu bóta. Vanræki viðskiptamaður upplýsingaskyldu samkvæmt ákvæði þessu er hann ábyrgur fyrir greiðslu bóta vegna alls þess tjóns sem Icetransport ehf. kann að verða fyrir vegna vanrækslunnar.
  • Viðskiptamaður er ábyrgur fyrir því að allar nauðsynlegar upplýsingar um meðhöndlun vöru komi fram þegar vara er afhent í vöruhús s.s. upplýsingar um hita- og rakastig vöru eða aðrar upplýsingar um sérstaka meðhöndlun vöru.
  • Viðskiptamanni ber að senda félaginu tilkynningu um breytt heimilisfang ef svo ber við, og aðrar upplýsingar sem þarf.

11. Vanefndaúrræði

  • Vanefni viðskiptamaður skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum verulega eða samningi á þeim byggðum, skal Icetransport ehf. vera heimilt að rifta samningi án fyrirvara. Ef vanefndir viðskiptamanns eru verulegar, skal Icetransport ehf. heimilt að segja samningi upp með 14 daga fyrirvara. Skal tilkynning þess efnis send viðskiptamanni, þar sem skorað er á hann að bæta úr annmarkanum innan ofangreinds frests að öðrum kosti falli samningur úr gildi og þar með ábyrgð félagsins sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. viðskiptaskilmála þessara.
  • Í öðrum tilvikum en þeim sem að ofan greinir er félaginu heimilt að segja samningi upp með þriggja mánaða fyrirvara með sendingu tilkynningar.

12. Haldsréttur

  • Icetransport ehf. skal eiga haldsrétt og samningsveð, eftir því sem við á, í öllum vörum viðskiptamanns sem félagið hefur í sinni vörslu, vegna allra krafna Icetransport ehf. á hendur viðskiptamanni bæði eldri kröfum og yngri, án tillits til þess hvort þær tengjast flutningi á farmi eða ekki.
  • Kjósi Icetransport ehf. að beita framangreindum haldsrétti eða samningsveði ber félaginu að tilkynna viðskiptamanni skriflega um slíkt með því að senda honum tilkynningu. Í tilkynningunni skal félagið skora á viðskiptamanninn að greiða kröfuna/kröfurnar.
  • Greiði viðskiptamaður ekki kröfuna innan 14 daga frá sendingu tilkynningar er félaginu heimilt að selja vöruna á hvern þann hátt sem það kýs, án þess að tilkynna viðskiptamanni um það sérstaklega.
  • Nægi afrakstur af sölu vörunnar ekki til þess að gera upp kröfuna/kröfurnar, á félagið rétt á því að fá mismuninn greiddan frá viðskiptamanni ásamt vöxtum og kostnaði. Verði afgangur af sölunni eftir að búið er að gera upp kröfuna ásamt vöxtum og kostnaði ber félaginu að greiða hann til viðskiptamannsins.

13. Ábyrgð viðskiptamanns

  • Viðskiptamaður ber skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eftir almennum reglum
    skaðabótaréttar.

14. Tilkynningar

  • Í skilmálum þessum er gert ráð fyrir því að við vissar kringumstæðum skuli félagið eða viðskiptamaður senda gagnaðila tilkynningu.
  • Allar tilkynningar ber að senda af stað með sannanlegum hætti á það heimilisfang sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimili þeirra, eins og það er skráð þegar tilkynning er send af stað. Sé þess gætt skal tilkynningin hafa þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þó að hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.

15. Skoðun

  • Icetransport ehf. hefur leyfi til að opna og skoða innihald sendingar í viðurvist tollayfirvalda, án þess að gera viðskiptamanni viðvart.

16. Vextir

  • Icetransport ehf. er ekki skylt að greiða vexti af kröfum fyrr en frá dómsuppsögu.

17. Fyrning

Allar kröfur sem rísa kunna á hendur Icetransport ehf. fyrnast á einu ári frá þeim tíma sem
hér segir:

  • Ef um er að ræða kröfu vegna tjóns eða skemmda á vöru, frá afhendingu vörunnar eða þeim degi er félaginu bar að afhenda viðskiptamanni vöruna.
  • Í öllum öðrum tilvikum en að ofan greinir, frá þeim degi er viðskiptamaður vissi eða mátti vita um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans.

18. Tryggingar

  • Icetransport ehf. tryggir ekki vörur sem eru í vörslum félagsins eða undirverktaka þess. Viðskiptamönnum félagsins er bent á að vátryggja allar vörur sínar gegn hvers kyns tjóni.

19. Önnur ákvæði

  • Icetransport ehf. áskilur sér rétt til að hafna viðskiptum ef svo ber undir.
  • Icetransport ehf. er heimilt að ráð til sín undirverktaka til þess að taka að sér þá þjónustu sem félagið hefur takið að sér gagnvart viðskiptamanni. Viðskiptaskilmálar þessir gilda um öll þau verk sem undirverktakar inna af hendi fyrir félagið og er því undirverktökum heimilt að bera fyrir sig öll ákvæði viðskiptaskilmála þessara, enda gilda skilmálarnir um viðskipti félagsins við viðskiptamenn sína óháð því hvort félagið nýti þjónustu undirverka.
  • Icetransport ehf. áskilur sér fullan rétt til þess að breyta ákvæðum viðskiptaskilmála þessara, enda verði viðskiptamönnum félagsins tilkynnt um það. Útsending tilkynningar á grundvelli 14. gr. viðskiptaskilmála þessara ásamt nýjum viðskiptaskilmálum og/eða birting á heimasíðu félagsins www.icetransport.is telst nægileg tilkynning. Litið er svo á að viðskiptamaður Icetransport ehf. hafi samþykkt breytingar á viðskiptaskilmálum, ef hann kaupir þjónustu út í reikning af félaginu eftir að tilkynning um breytingu hefur verið gefin út.

20. Gildistími skilmála

  • Skilmálar þessir gilda frá 1. október 2008.

21. Varnarþing

Mál vegna viðskiptaskilmála þessara og samninga á þeim byggðum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.