Almennir skilmálar – Tollmiðlun
Þessir skilmálar gildi um alla þá tollmiðlaþjónustu sem Icetransport ehf taka að sér fyrir viðskiptamann, hvort sem greitt er fyrir þjónustuna eða ekki.
Vara sem er flutt er til og frá landinu skal vera tollafgreidd í samræmi við ákvæði gildandi tollalaga á hverjum tíma. Tollafgreiðsla vöru felst í því að ljúka þeim formsatriðum/skjalagerð sem gert er skilyrði um í tollalögum svo að heimilt sé að afhenda vöru til nota innanlands, til umflutnings eða til útflutnings.
1. Skilgreiningar
Í þessum skilmálum hafa eftirfarandi hugtök þessa merkingu:
„Aðflutningsgjöld“ þýðir allur tollur og aðrir skattar, gjöld og kostnaður og vextir og kostnaður sem fellur á slík gjöld sem á að greiða við tollmeðferð vöru við inn- eða útflutning.
„Félagið“ þýðir Icetransport ehf. kt. 541298-3049, Selhella 7, 221 Hafnarfjörður, Íslandi og dótturfélög þess. Það þýðir einnig hver og einn sem starf sem starfs- eða umboðsmaður eða starfar á einn eða annan hátt í þágu félagsins eða dótturfélag þess.
„Dótturfélag“ þýðir önnur félög sem félagið á að fullu og/eða á meirihluta í og/eða fer með meirihluta atkvæða hverju sinni.
„SDR“ er alþjóðleg verðmæliseining sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar. Það á að reikna verðmæliseiningu til íslensks gjaldeyris eftir gengi dagsins sem greiðsla fer fram.
„Tollalög“ eru tollalög nr. 88/2005 með síðari breytingum, reglugerðir, reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem eru sett á grundvelli framantalinna laga.
„Tollskjöl“ þýðir tollskýrsla og önnur skjöl sem þarf að afhenda við tollafgreiðslu eins og getið er um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, í bréflegu eða rafrænu formi.
„Vara“ er hver sá hlutur eða hlutir sem eru skráðir í einstaka tollskýrslu og geta fengið tollmeðferð samkvæmt tollskrá.
„Viðskiptamaður“ er einstaklingur eða lögpersóna og á við þann sem hefur óskað eftir því að félagið komi fram fyrir hans hönd gagnvart tollyfirvöldum til þess að inna af hendi þá þjónustu sem félagið hefur leyfi til að veita sem tollmiðlari samkvæmt tollalögum. Skilgreiningin á einnig við um hvern þann sem starfar sem starfs- eða umboðsmaður eða á einhvern annan hátt í hans þágu.
„Vörureikningur“ er vörureikningurinn sem viðskiptamaður afhendir félaginu í byrjun til þess að ákvarða tollverð viðkomandi vöru.
„Þjónusta“ eru öll verk eða hluti verka sem félagið tekur að sér fyrir viðskiptamann og eru innan þess hlutverks að koma fram gagnvart tollyfirvöldum og sjá um þá þjónustu sem talað er um í 4. gr..
2. Gildissvið
Þessir skilmálar, þar á meðal undanþágur frá ábyrgð, varnir, réttindi og ábyrgðartakmarkanir, eiga að gilda í hverskyns málarekstri gegn félaginu burt séð frá því hvort krafan byggist á samningi eða skaðabótaskyldum verknaði utan samninga og þó að bótaskylda kynni að hafa stofnast vegna ásetnings, mikils gáleysis, höfnun samnings eða verulegra vanefnda.
Þessi skilmálar eiga að gilda um réttarsamband viðskiptamanns og félagsins. Þeir gilda einnig um eiganda þeirrar vöru sem félagið tollafgreiðir og félagsins ef eigandinn er ekki einnig viðskiptamaður.
3. Umboð
Þar sem að félagið hefur starfsleyfi sem tollmiðlar samkvæmt gildandi tollalögum hefur félagið heimild samkvæmt tollalögum til þess að koma fram sem umboðsmaður viðskiptavina sinna gagnvart tollyfirvöldum við tollafgreiðslu á vörum sem eru fluttar til Íslands og úr landinu.
Viðskiptamaður veitir félaginu fullt og ótakmarkað umboð til að fara fram fyrir hans hönd gagnvart tollyfirvöldum í samræmi við heimildir tollalaga, til að undirrita skuldbindandi ábyrgarðaryfirlýsingu á tollskýrslu yfir vöru sem er tollafgreidd í nafni viðskiptamanns og til að biðja um skuldfærslu hjá viðskiptamanni á aðflutningsgjöldum vegna þeirrar vöru sem er tollafgreidd í nafni viðskiptamanns í samræmi við þær heimildir sem viðskiptamaður hefur til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum hjá tollyfirvöldum þegar óskað er eftir því að félagið annist tollafgreiðslu fyrir hönd viðskiptamanns.
4. Þjónusta félagsins
Þjónusta félagsins sem tollmiðlari á grundvelli umboðs samkvæmt 3. gr er takmörkuð við eftirfarandi þjónustu, eftir því sem er viðeigandi og viðskiptamaður óskar eftir hverju sinni:
- Ráðgjöf við gerð tollskjala, eins og tollflokkun og útreikning aðflutningsgjalda.
- Tollskýrslugerð vegna inn- og útflutnings.
- Beiðni um tollafgreiðslu vöru með skjalsendingum á milli tölva (SMT-tollafgreiðslu).
- Greiðslu aðflutningsgjalda fyrir hönd viðskiptamanns.
Ofangreind upptalning er tæmandi og takmarkast við skyldur félagsins sem tollmiðlari samkvæmt gildandi tollalögum.
Félagið skuldbindur sig til þess að veita þá þjónustu sem það tekur að sér fyrir viðskiptamann á eðlilegan og vandvirkan hátt og viðhalda trúnaði. Félagið skuldbindur sig einnig til þess að uppfylla skilyrði tollalaga fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar.
Félagið skuldbindur sig til þess að senda viðskiptamanni afrit af öllum tollskjölum til yfirferðar ekki seinna en fimmtan (15) dögum eftir að beiðni um tollafgreiðslu hefur verið send til tollstjóra.
Félagið metur það hvort tollskjöl og þau fylgiskjöl og aðrar upplýsingar sem viðskiptamaður leggr fram til grundvallar tollskýrslugerð fullnægi ákvæðum tollalaga. Félagið kallar eftir því sem vantar eða kallar eftir nýjum gögnum meti félagið það svo að skjölin og upplýsingarnar séu ófullnægjandi. Beiðni um tollafgreiðslu getur ekki farið fram fyrr en fullnægjandi gögnum og upplýsingum hefur verið skilað til félagsins.
Taki félagið eftir því að að viðskiptamaður hafi vísvitandi afhent röng eða ófullnægjandi gögn eða upplýsingar mun félagið undir eins tilkynna það til yfirvalda.
5. Ábyrgð félagsins
Félagið ber skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar á beinu tjóni viðskiptamanns sem rekja má til ásetnings eða mikils gáleysis félagsins eða manna sem félagið ber ábyrgð á, með þeim undanteknginum sem koma fram í þessum skilmálum. Það hvílir á þeim sem heldur því fram að félagið beri ábyrgð að vera með sönnunarbyrði um skaðabótaábyrgð.
6. Undanþága frá ábyrgð
6.1. Ástæður fyrir ábyrgðarleysi
Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á tjóni sem rekja til neðangreindra orsaka:
- Rangra eða ónákvæmra gagna eða upplýsinga frá viðskiptamanni.
- Gagna eða upplýsinga sem viðskiptamaður hefur haldið frá félaginu.
- Ef viðskiptaverð vöru telst ekki uppfylla ákvæði V. kafla tollalaga.
- Ef óskað hefur verið eftir bindandi áliti um tollflokkun samkvæmt 21. gr. tollalaga og ákvörðun um bindandi tollflokkun er afturkölluð af tollstjóra eða henni breytt eftir kæru til ríkistollanefndar.
- Ef viðskiptamaður sinnir ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart tollyfirvöldum eða færist undan því að veita þá aðstoð sem hann á að veita tollyfirvöldum samkvæmt tollalögum.
- Vanskila viðskiptamanns á aðflutningsgjöld, dráttarvexti eða annan kostnað og/eða önnur gjöld.
- Brota viðskiptamanns, eða manna á hans vegum, á ákvæðum þessara skilmála og/eða umboði og/eða samningi aðila.
- Gáleysi eða ásetning viðskiptamanns eða manna á hans vegum.
- Óviðráðanlegra ytri atvika, sem ekki verður séð fyrir og ekki er hægt að koma í veg fyrir (Force Majure).
6.2. Tafir og/eða seinkun
Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni, kostnaði eða skemmdum, sem verða vegna tafa eða seinkunar á tollafgreiðslu.
6.3. Óbeint eða afleitt tjón
Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni eða ágóðatapi.
7. Ábyrgðartakmörkun
Ef að til þess kemur að félagið beri skaðabótaábyrgð vegna tollafgreiðslu vöru eiga skaðabætur ekki að vera hærri en sem nemur fimmfaldri þóknun félagsins fyrir tollafgreiðslu viðkomandi vöru.
Ef ekki er hægt að sannreyna þóknun félagsins og þ.a.l. ofangreinda takmörkunarfjárhæð eiga skaðbætur ekki að vera hærri en sem nemur SDR 500 (fimmhundruð) vegna hvers tjóns eðða fleiri tjóna ef orsök tjónanna er sú sama.
8. Eigin sök viðskiptamanns
Ef það er sannað að viðskiptamaður eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis á að lækka eða fellur niður bætur til viðskiptamanns.
Viðskiptamaður á alltaf að takmarka tjón sitt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
9. Vextir
Greiðsla vaxta á kröfum á hendur félaginu verða ekki fyrr en frá uppkvaðninu dóms.
10. Skyldur viðskiptamanns
Viðskiptamaður ábyrgist að hann sé eigandi eða rétthafi þeirrar vöru, eða að hann hafi fullt umboð frá eiganda vörunnar, sem beðið er um að tollafgreiða.
Viðskiptamaður ber ábyrgð á því að fullnægja öllum innlendum og erlendum lögum, reglum og hvers konar fyrirmælum yfirvalda varðandi vöruna og þá þjónustu sem óskað er eftir að félagið veiti.
Viðskiptamaður ber ábyrgð á því að öll gögn og allar upplýsingar sem hann veitir félaginu séu réttar og nákvæmar, hvort sem gögnin og upplýsingar eru á rafrænu eða skriflegu formi.
Félagið byggir á þessum gögnum og upplýsingum þegar það veitir viðskiptamanni þjónustu sína.
Viðskiptamaður þarf að fara yfir öll tollskjöl, skrifleg og rafræn, sem félagið sendir honum samkvæmt 4. gr. og ganga úr skugga um að þau séu rétt. Ef að tollskjölin eru ekki nákvæm eða rétt þarf viðskiptamaður strax að láta félagið vita og veita félaginu ráð um þau atriði sem þarf að laga. Ef að viðskiptamaður gerir ekki athugasemd við tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá innan tíu (10) daga frá móttöku tollskjala er gengið út frá því að hún sé rétt og að viðskiptamaður hafi samþykkt viðkomandi tollflokkun og tollafgreiðslu vörunnar. Viðskiptamaður er ábyrgur fyrir því að kynna þessa skilmála fyrir starfs- eða umboðsmönnum sínum eða öðrum sem starfa fyrir hann.
11. Greiðsla aðflutningsgjalda fyrir hönd við viðskiptamanns
Félaginu er ekki undir neinum kringumstæðum skylt að leggja aðflutningsgjöld út fyrir viðskiptamann. Félaginu ber engin skylda að greiða aðflutningsgjöld fyrir hönd viðskiptamanns nema viðskiptamaður hafi fyrirfram veitt félaginu nægilegt fé til að greiða út slíkar greiðslur. Félagið ákveður hverju sinni þá fjárhæð sem þarf að greiða viðskiptamanni samkvæmt því sem fram kemur hér á undan. Félagið á að halda fénu aðskildu í bókhaldi sínu. Ef það er einhver afgangur eftir að aðflutningsgjöld og aðrar kröfur sem félagið gæti átt á hendur viðskiptamanni hafa verið greidd/ar á afgangurinn að endurgreiðast viðskiptamanni.
12. Ábyrgð viðskiptamanns
Viðskiptamaður ábyrgist að hann hafi gilt leyfi tollyfirvalda til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum. Viðskiptamaður skuldbindur sig til að tilkynna félaginu með sannanlegum hætti allar þær breytingar sem kunna að verða gerðar á leyfinu og/eða ef leyfið rennur út á gildistíma umboðs skv. 3. gr. þessa skilmála.
Ef vanskil verða á aðflutningsgjöld eða tollafgreiðsla fær synjun frá tollyfirvöldum á viðskiptamaður að tilkynna félaginu það undir eins með sannanlegum hætti.
Ef að upplýsingar og/eða gögn sem viðskiptamaður gaf félaginu eru rangar, villandi, ófullnægjandi eða ekki samkvæmt lögum ber viðskiptamaður hlutlæga skaðabótaábyrgð á öllu beinu eða óbeinu tjóni sem félagið verður fyrir. Að öðru leyti ber viðskiptamaður skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eftir almennum reglum skaðabótaréttar.
Viðskiptamaður er undantekningarlaust ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og/eða annarra gjalda samkvæmt tollalögum. Ef að félagið þarf að greiða aðflutningsgjöld eða hvers konar aðrar greiðslur samkvæmt ákvörðun tollyfirvalda eða dómstóla vegna rangrar tollflokkunar eða ábyrgðar á grundvelli tollalaga eða annarra atvika þarf viðskiptamaður að endurgreiða félaginu slík gjöld eða greiðslur ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum. Viðskiptamaður þarf einnig að bæta félaginu þann skaða og kostnað, þar með talinn lögfræðikostnað, sem félagið hefur haft af slíkri greiðslu og halda félaginu skaðlausu af öllum afleiðingum þess. Upphaf fyrningarfrests slíkrar endurkröfu skal miðast við þann dag sem félagið greiðir framangreind gjöld.
13. Þóknun
Viðskiptamaður á greiða félaginu þóknun fyrir þau verk og þá þjónustu sem félagið veitir viðskiptamanni. Viðskiptamaður á einnig endurgreiða félaginu allan kostnað sem félagið hefur greitt fyrir hönd viðskiptamanns. Miða skal þóknun og greiðslu hennar við gildandi gjaldskrá félagsins á hverjum tíma svo lengi sem ekki er samið um neitt annað. Hafi þóknun og/eða útlagður kostnaður ekki verið greiddur á gjalddaga hefur félagið heimild til að krefja viðskiptamann um dráttarvexti frá gjalddaga og innheimtukostnað.
14. Tilkynningar um tjón; fyrning
Viðskiptamaður þarf að senda félaginu skriflega tilkynningu um tjón sem hann telur að félagið beri um leið og viðskiptamaður tekur eftir tjóninu og í síðasta lagi áður en tíu (10) dagar eru liðnir frá því að hann vissi eða hefði getað vitað um tjónið. Í tilkynningunni sem greint er frá hér fyrir ofan þarf að koma skýrt fram um hvaða vöru er að ræða, fjárhæð bótakröfu ef kostur er og hvaða ástæður séu fyrir því að félaginu er haldið ábyrgu vegna viðkomandi atviks ef við á. Réttur viðskiptamanns til þess að krefja félagið um bætur vegna atviksins falla niður sökum sinnuleysis ef ekki er tilkynnt um tjónið samkvæmt því sem fram kemur hér á undan.
Allar kröfur á hendur félaginu falla niður sökum fyrningar innan eins (1) árs frá þeim degi sem tollskýrsla var send af stað til tollyfirvalda, hvort sem það var með SMT sendingu eða með öðrum hætti, eða ef það á ekki við þá frá þeim degi sem viðkomandi þjónusta var veitt þrátt fyrir framangreind ákvæði.
Að öðru leyti gilda almennar reglur gildandi laga um fyrningu kröfuréttinda um fyrirningu krafna samkvæmt þessum skilmálum.
15. Uppsögn á viðskiptum
Ef að viðskiptamaður vanefnir skyldur sínar verulega samkvæmt þessum skilmálum eða samningi og/eða umboð sem byggast á skilmálanum hefur félagið heimild til að rifta samningi aðila og/eða umboði um tollafgreiðslu án fyrirvara.
Félaginu er heimilt að segja samningi aðila og/eða umboði um tollafgreiðslu upp með fimmtán (15) daga fyrirvara ef vanefndir eru ekki verulegar og tilkynningu þess efnis þarf að senda viðskiptamanni á sannanlegan hátt. Í tilkynningu er viðskiptamaður beðinn um að bæta úr annmarkanum innan ofangreinds frest og ef hann gerir það ekki fellur samningurinn niður sem og allar skyldur og öll ábyrgð félagsins.
Í öðrum tilvilkum hefur félagið heimild til að segja samningi aðila og/eða umboði um tollafgreiðslu upp með þrjátíu (30) daga fyrirvara.
16. Sending tilkynninga
Ef gert er ráð fyrir því í þessum skilmálum eða samningi aðila og/eða umboði um tollafgreiðslu að annar hvor aðili sendi gagnaðila tilkynningu, hvaða tilkynning sem það kann að vera, þá skal hún send af stað með sannanlegum hætti til þess heimilisfangs sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimilis þeirra, eins og það er skráð þegar tilkynning er send af stað.
Tilkynningin hefur þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa jafnvel þó að hún skili sér afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.
17. Lög og lögsaga
Íslensk lög gilda um þessa skilmála og samning aðila og/eða umboð um tollafgreiðslu. Mál vegna þessara skilmála og samning aðila og/eða umboð um tollafgreiðslu eiga að vera rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
18. Gildistími
Þessir skilmálar um tollmiðlun taka gildi frá og með 1. október 2013. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta þessum skilmálum hvenær sem er. Breytingar á skilmálunum eiga að taka gildi frá og með þeim degi sem breyttir skilmálar eru birtir á heimasíðu félagsins.